Sunday, January 2, 2011

Gleðilegt nýtt ár !

Það er nú fátt eins ómótstæðilegt og ilmur að nýbakaðri eplaköku. Þessi eplakaka, sem er eiginlega eplabrauð eða eplapitsa, er stór, dugar alveg fyrir 8-10 manns. Ég blanda saman hveiti og heilhveiti til að gera hana aðeins hollari en það má alveg notast við hveiti eingöngu. Góð byrjun á nýju ári að trappa sig niður í sætindunum að baka svona girnilega eplaköku sem er ekki svoooo...... óholl.


Brauð eplakaka

2 1/2 dl volg mjólk
3 tsk. þurrger
500 g hveiti
100 g heilhveiti
140 g smjör, mjúkt
100 g sykur, eða hrásykur
1 tsk. malað sjávarsalt
2 egg
2 tsk. vanillusykur
20 kardimommuhylki, fræin steitt í morteli, má sleppa

Setið mjólkina í hrærivélarskál og sáldrið gerinu út í, látið bíða í 2-3 mín, hrærið saman. Setjið allt sem fer í deigið út í skálina og hnoðið saman í 4-5 mín með hnoðaranum. Deigið er frekar blautt í sér. Losið deigið aðeins frá köntunum og undir með sleif og sáldrið smá hveiti yfir og um kring, bara svo betur gangi fyrir deigið að lyftast. Setjið plastfilmu yfir skálina og látið deigið lyftast á hlýjum stað í 40-60 mín. Sláið deigið niður og hnoðið létt saman. Setjið bökunarpappír á ofnplötu. Fletjið deigið út á hveitistráðu borði, það mikið að það næstum þeki ofnplötuna. Leggið deigið á pappírinn á plötunni og fletjið það út svo það nái út í alla kanta.

Ofan á:
3 -4 stór epli eða um 1 kíló
100-150 g möndlur, saxaðar (má vera blandaðar hnetur)
100 g rúsínur eða döðlur
100-150 g marsípan, rifið, má sleppa
60-70 g sykur eða hrásykur
2 tsk. kanill
rifinn börkur af 1 sítrónu

Flysjið eplin og skerið í báta, raðið þeim ofan á deigið. Dreifið möndlum, rúsínum og rifnu marsípani yfir eplin. Blandið saman sykri og kanil og sáldrið yfir, líka á endana á deiginu. Rífið sítrónubörk yfir allt í lokin. Látið hefast aftur í 30 mín. Hitið ofninn í 190°C eða 170°C á blástur. Bakið eplabrauðið í 30-40 mín. Berið fram strax. Ef þið eigið afgang er best að frysta og hita síðan upp í ofni við 100°C í 15 mín.

No comments:

Post a Comment