Wednesday, January 12, 2011

Ómótstæðileg !!

Ég hef verið aðdáandi matargúrúsins Nigel Slater í mörg ár og á flestar matreiðslubækurnar hans. Maðurinn er í hálfgerðu ástarsambandi við mat og bækurnar hans bera þess merki. Hann ber svo mikla virðingu fyrir hráefninu og fer svo vel með það. Á vefsíðunni hans sá ég uppskrift að espressóköku þar sem heslihneturnar eru ristaðar og malaðar. Það kveikti í mér og útkoman var þessi líka girnilega og gómsæta kaka. Ég breytti henni smá og notaði hrásykur sem gerði hana dekkri, blautari og meira karmellukenndari og jók við hneturnar. Mæli alveg með þessari og ekki láta ykkur detta í hug að sleppa því að rista hneturnar, það er fyrirhafnarinnar virði.


Espressó-súkkulaðikaka

250 g smjör, mjúkt
250 g hrásykur
100 g heslihnetur
4 egg
120 g hveiti (pilsbury´s)
4 tsk. lagað espressó eða 4 tsk. sterkt lagað skyndikaffi
120 g súkkulaði 70%, saxað gróft

Hitið ofninn í 185°C, 175°C á blástur.Hrærið smjör og sykur mjög vel saman. Ristið hneturnar á meðan á pönnu, setjið þær á eldhúspappír eða viskustykki og nuddið hýðinu af þeim. Malið þær fínt í matvinnsluvél. Bætið eggjum út í smjörblönduna, einu í einu og hrærið vel saman. Ef blandan ystir ( sem getur gerst af því þetta er mikið smjör) er gott að setja 2 msk af hveitinu út í og hræra svolítla stund áfram. Bætið hveiti, espressó, hnetumjöli og súkkulaði út í og blandið varlega saman við. Setjið bökunarpappír á botninn á 22 cm smelluformi og jafnið deiginu í það. Bakið kökuna í 50 mín, 40-45 mín á blæstri. Þessi kaka geymist vel eða í tæpa viku í loftþéttum umbúðum.

No comments:

Post a Comment