Friday, January 7, 2011

Grænmetisréttur eftir hátíðamatinn.

Þessi gríski réttur er í miklu uppáhaldi á heimilinu. Blaðdeigið fæst í Hagkaup og Nóatúni og er mjög sniðugt í marga rétti. Fyrir þá sem finnst bökur góðar er sniðugt að nota blaðdeig í botninn til að spara tíma og vinnu, nota nokkur blöð og smyrja með olíu eða smjöri í milli eins og gert er í þessum rétti. Munið að blaðdeig þarf að afþýða svo gott sé að handfjatla það. Ef þið vinnið með hálfrosið deig molnar það allt niður.




Grísk spínatbaka (spanakópítes)
fyrir 6-8

3 msk. olía
1 laukur eða 6-8 smáir vorlaukar, saxað
3 hvítlauksgeirar, saxaðir
400 g spínat
400 g kotasæla
1 krukka fetaostur, vökvi sigtaður frá
2-3 msk. ferskt dill eða 2 tsk. þurrkað
2-3 msk. fersk steinselja eða 2 tsk. þurrkuð ( má sleppa)
sjávarsalt og nýmalaður pipar

1 pakki blaðdeig (fíló-deig)
6 msk. olía
50 g smjör, brætt

Setjið upp vatn í pott. Hitið ofninn í 200°C, 180°C á blástur. Steikið lauk í olíu þar til hann fer að verða glær, bætið þá hvítlauk út í og steikið aðeins áfram. Sjóðið spínatið örstutta stund í sjóðandi vatni, hellið því í sigti og látið renna af því, gott að þrýsta því ofan í sigtið til að ná úr því öllum vökva. Setjið laukblönduna í skál, bætið spínati, kotasælu, fetaosti og fersku kryddi út í, smakkið til með salti og pipar. Blandið olíu og smjöri saman. Benslið botninn á ofnföstu formi, mitt er 35x25 cm. Leggið blaðdeigsörk á botninn og penslið með smjörblöndunni, setjið helminginn af deigblöðunum í formið og smyrjið á milli. Setjið fyllinguna á deigið í forminu. Setjið afganginn af deiginu ofan á og smyrjið á milli. Penslið deigið efst og skerið í gegn um allt í 8 jafna bita. Bakið réttinn í 35-45 mín eða þar til hún er orðin gullin og girnileg. Þið notið styttri bökunartíma ef þið notið blástur. Berið fram með góðu salati. Gott að frysta og nota í nestispakkann. Best er þá að hita upp við 100°C í 10-15 mín.

No comments:

Post a Comment