Thursday, December 30, 2010


Fullkominn endir

Áramót nálgast og margir að spá í hvaða mat á að bera fram þennan síðasta dag á árinu. Ég er allavega með uppskrift að súkkulaðibúðing........nema hvað. Ég hef verið að þróa þessa uppskrift í nokkurn tíma og setti síðast kartöflumjöl í hann á staðin fyrir hveiti sem var venjan áður. Útkoman var meiriháttar, Mjúka miðjan flauelsmjúk - súkkulaði klikkar ekki.
Gleðilegt nýtt ár !!


Súkkulaðibúðingur með mjúkri miðju

Í svona súkkulaðibúðing þar sem súkkulaði er í aðalhlutverki er atriði að nota gott hreint súkkulaði. Búðingurinn er eins góður og súkkulaðið sem í hann fer !

190 g súkkulaði, vandað 70 %,
180 g smjör
3 egg
3 eggjarauður
6 msk. sykur
3 tsk. kartöflumjöl

Léttþeyttur rjómi eða vanillusósa til að bera fram með

Hitið ofninn í 220°C. 210 á blástur. Smyrjið 6 form með smjöri eða olíu. Það er best að nota form sem taka um 2 dl og fylla þau ekki alveg. Bræðið súkkulaði og smjör saman í vatnsbaði við vægann hita. Þeytið egg , eggjarauður og sykur létt saman, blandan á ekki að vera þeytt í froðu bara létt saman svo hún verði aðeins léttari. Blandið súkkulaðiblöndu út í eggin og sigtið kartöflumjölið yfir. Blandið öllu saman með sleikju og hellið í formin. Bakið búðinginn í 6 mín, tíminn fer svolítið eftir ofnum, gæti þurft 8 mín. Látið búðinginn standa aðeins á borðinu svo hann jafni sig eða setjið hann í ísskáp í 10 mín og hvolfið honum síðan á diska. Berið léttþeyttan rjóma eða kalda vanillusósu fram með búðingnum.
Magnið í þessari uppskrift er alveg nóg fyrir 8 manns eða í í 8 form og þá bara að setja minna í formin. Þá er samt ráð að athuga bökunartímann, hann er styttri, gæti verið um 4-5 mín. Það er líka hægt að nota múffuform (járn) og skipta deiginu í það.

No comments:

Post a Comment