Það bætir miklu við góða eftirrétti að bera ekta vanillusósu með. Mér finnst súkkulaðikaka með vanillusósu og berjum eða berjasósu algjörlega ómótstæðilegur eftirréttur. Það er pínu vandi að laga vanillusósu, hún fer í drafla ef maður sýður hana of mikið, það þarf að taka hana af hitanum á réttu augnabliki eða um leið og hún byrjar að þykkna. Með því að setja smá kartöflumjöl út í eggjarauðurnar eins og þessi uppskrift hér inniheldur er mun auðveldara að laga sósuna.
Vanillusósa
2 dl mjólk
1 dl rjómi
1 vanillustöng
3 eggjarauður
3 msk. sykur
2 tsk. kartöflumjöl
1/2 - 1 tsk. vanilludropar
Setjið mjólk og rjóma í pott. Kljúfið vanillustöngina í tvennt eftir endilöngu og skafið fræin innan úr. Setjið þau í pottinn ásamt stönginni og hitið mjólkurblandið að suðu. Setjið lok á pottinn og látið þetta standa í 20 mín svo bragðið af vanillunni nái að blandast mjólkurblandinu vel. Sláið eggjarauðurnar, sykurinn og kartöflumjölið saman í skál. Hellið mjólkurblandinu, gegn um sigti, út í rauðurnar og þeytið létt saman. Hellið blöndunni aftur í pottinn og látið suðuna koma upp. Hellið strax í skál. Smakkið til með vanilludropum. Athugið að það er áríðandi að láta sósuna ekki sjóða neitt eftir að suðan er komin upp hún getur farið í drafla, hafið skál tilbúna og hellið henni strax í skál. Kælið sósuna. Vanillusósa er best sama
dag og hún er löguð.
No comments:
Post a Comment