Wednesday, December 15, 2010

Steik ?

Í uppáhalds fiskbúðinni minni, Hafberg í Gnoðavogi, fæst þessa dagana Keila á frábæru verði eða á 1490 kr. kíló, roðlaust og beinlaust. Keila er af þorskætt, er föst í sér, minnir á skötusel eða lúðu og er algjört sælgæti. Þetta er einn af mínum uppáhaldsréttum. Góður fiskur er að mínu mati betri en nokkur steik...............

Keila með linsubaunum

800 g keila, þverskorin í 3 cm þykka bita
2 msk. olía
1 msk. smjör
2 hvítlauksrif, sneidd
sjávarsalt og nýmalaður pipar


300 g brúnar linsubaunir
2-3 msk olía
2 skalotlaukar, saxaðir
2-3 hvítlauksrif, söxuð
3-4 sneiðar parmaskinka, önnur hráskinka eða góð pylsa, skorin í bita
sjávarsalt og nýmalaður pipar
2-3 msk. söxuð fersk steinselja

jómfrúarolía til að bera fram með

Sjóðið linsubaunurnar í 30 mín eða þar til þær eru mjúkar, hellið í sigti. Steikið skalotlauk og hvítlauk þar til hann er mjúkur. Bætið hráskinku út í og steikið aðeins áfram, bætið linsubaunum á pönnuna og hitið vel í gegn. Saltið og piprið og sáldrið steinselju yfir. Haldið heitu á meðan þið steikið fiskinn.

Bræðið smjörklípuna í olíu og steikið hvítlaukinn þar til hann er farinn að taka lit, veiðið hann upp úr og geymið. Steikið Keilubitana á báðum hliðum með skurðsárið niður eins og þið væruð með steik, 2-3 mín á hvorri hlið er passlegt en fer þó eftir þykkt stykkjana, saltið og piprin eftir smekk. Setjið hrauk af linsum á hvern disk eða á fat, raðið keilubitunum ofan á og setjið hvítlaukssneiðarnar ofan á fiskinn. Setjið svolítið af jómfrúarolíu í kring um linsurnar og sáldrið steinselju í kring.

No comments:

Post a Comment