Monday, January 31, 2011

Gamla góða

Ég er búin að prófa margar uppskriftir að gulrótarköku en alltaf hefur gamla góða uppskriftin frá mömmu vinninginn.

Gulrótarkaka

150 g sykur
1 1/4 dl olía
3 egg, stór
150 g hveiti
1/2 tsk. kanell
1/2 tsk. matarsódi
1 tsk. lyftiduft
1/2 tsk. vanillusykur
1/4 tsk. salt
1-2 tsk. sítrónubörkur
250 g fínt rifnar gulrætur
75 g rúsínur
50 g heslihnetur, saxaðar gróft

Hitið ofninn í 170°C, 160 á blástur. Þeytið sykur og olíu vel saman. Bætið eggjum út í einu í einu og hrærið vel saman við. Setjið hveiti, kanel, matarsóda og lyftiduft í skál, blandið því aðeins saman og sigtið það út í. Bætið síðan vanillusykri, salti, sítrónubörk, gulrótum, rúsínum og heslihnetum í deigið og blandið öllu saman. Setjið bökunarpappír á botninn á 22-24 cm smelluformi. Hellið deiginu í það. Bakið kökuna í um 50 -60 mín. Fylgist vel með kökunni í lok bökunartímans, kúnstin við djúsí gulrótarköku og svona matarkökur almennt er að baka þær ekki of lengi, taka þær úr ofninum rétt eftir að hætt er að "hvissa" í henni.
Losið kökuna úr forminu , setjið hana á tertudisk og látið hana kólna.

Krem:
80 g rjómaostur
80 g smjör
80 g flórsykur
1 tsk. vanilludropar

Hrærið allt vel saman og smyrjið ofan á kökuna.

Monday, January 24, 2011


Kássukelling........

Ég er mjög veik fyrir kássum sem eru búnar að elda í óratíma. Sérstaklega eins og þessari sem er full af bragðmiklum kryddum frá fjarlægum löndum. Nú er einmitt tíminn fyrir pottrétti sem ylja og næra.


Marokkóskur pottréttur
ætti að duga fyrir 4

3 msk. olía
2-3 laukar, saxaðir
2 stór hvítlauksrif, söxuð
1 kg. lambakjöt til dæmis lærissneiðar, skorið í bita
1 tsk. engifer
1 tsk. paprika
1 tsk. cuminduft
1 tsk. nýmalaður pipar
2 tsk. sjávarsalt
1-2 kanelstöng, eftir stærð
2 lárviðarlauf
3 stjörnuanísar
1 msk. hunang eða hlynsíróp
6 dl vatn
----
250 g sveskjur
250 g apríkósur


Steikið laukinn við vægan hita í olíu þar til hann fer að verða gullinn, steikið hvítlaukinn með síðustu mínúturnar. Setjið kjöt út í og steikið dágóða stund eða þar til það er brúnað. Bætið kryddi út í og steikið saman þar til allt fer að ilma eins og á arabískum veitingastað. Hellið vatni út í , hrærið vel í og látið allt malla í 50 mín til klukkutíma. Bætið þá sveskjum og apríkósum út í og látið malla í 30 mín í viðbót. Berið fram með kús-kús.

Friday, January 21, 2011

Dekrað við bóndann

Á mínu heimili er ekki dekrað við bóndann með súrum mat. Þessar ostastangir er það sem hann valdi sér enda er þær ótrúlega góðar. Þær er gerðar úr blaðdeigi og eru frábærar sem snakk fyrir matinn þegar eitthvað stendur til eða hluti af rétt á smáréttaborðið.




Ostastangir

3 msk. olía
2 laukar, þunnt sneiddir
2 hvítlauksrif, söxuð fínt
1 dl hvítvín, má vera óáfengt
2 tsk. sykur
1 dós ansjósur, 6-8 flök, þerrið mestu olíuna af og fínsaxið
hnefafylli steinselja, söxuð
2 dl bragðmikill ostur, td Ísbúi, rifinn niður
6 blöð blaðdeig, fílódeig
70 g smjör brætt

Hitið ofninn í 230°C, 210 á blástur. Steikið laukinn í olíunni við hægan hita þar til hann fer að verða glær og mjúkur, bætið hvítlauk út í og steikið aðeins áfram. Bætið hvítvíni og sykri út á pönnuna og látið malla í 5 mín. Setjið laukinn í skál og blandið ansjósum, steinselju, og ost saman við smakkið til með salti og pipar. Leggið 3 arkið af blaðdeigi á borð með bræddu smjöri á milli. Breiðið laukblöndunni á deigið. Setjið aðrar 3 arkið af deigi ofan á, smyrjið á milli. Skerið deigið í 3 hluta, á breiðari kantinn og síðan í fingurþykkar stangir. Setjið bökunapappír á ofnplötu. Snúið upp á stangirnar og raðið á ofnplötuna. Bakið í 8-10 mín. Best að borða samdægurs. Má frysta og pakkið þá vel í box.

Wednesday, January 12, 2011

Ómótstæðileg !!

Ég hef verið aðdáandi matargúrúsins Nigel Slater í mörg ár og á flestar matreiðslubækurnar hans. Maðurinn er í hálfgerðu ástarsambandi við mat og bækurnar hans bera þess merki. Hann ber svo mikla virðingu fyrir hráefninu og fer svo vel með það. Á vefsíðunni hans sá ég uppskrift að espressóköku þar sem heslihneturnar eru ristaðar og malaðar. Það kveikti í mér og útkoman var þessi líka girnilega og gómsæta kaka. Ég breytti henni smá og notaði hrásykur sem gerði hana dekkri, blautari og meira karmellukenndari og jók við hneturnar. Mæli alveg með þessari og ekki láta ykkur detta í hug að sleppa því að rista hneturnar, það er fyrirhafnarinnar virði.


Espressó-súkkulaðikaka

250 g smjör, mjúkt
250 g hrásykur
100 g heslihnetur
4 egg
120 g hveiti (pilsbury´s)
4 tsk. lagað espressó eða 4 tsk. sterkt lagað skyndikaffi
120 g súkkulaði 70%, saxað gróft

Hitið ofninn í 185°C, 175°C á blástur.Hrærið smjör og sykur mjög vel saman. Ristið hneturnar á meðan á pönnu, setjið þær á eldhúspappír eða viskustykki og nuddið hýðinu af þeim. Malið þær fínt í matvinnsluvél. Bætið eggjum út í smjörblönduna, einu í einu og hrærið vel saman. Ef blandan ystir ( sem getur gerst af því þetta er mikið smjör) er gott að setja 2 msk af hveitinu út í og hræra svolítla stund áfram. Bætið hveiti, espressó, hnetumjöli og súkkulaði út í og blandið varlega saman við. Setjið bökunarpappír á botninn á 22 cm smelluformi og jafnið deiginu í það. Bakið kökuna í 50 mín, 40-45 mín á blæstri. Þessi kaka geymist vel eða í tæpa viku í loftþéttum umbúðum.

Friday, January 7, 2011

Grænmetisréttur eftir hátíðamatinn.

Þessi gríski réttur er í miklu uppáhaldi á heimilinu. Blaðdeigið fæst í Hagkaup og Nóatúni og er mjög sniðugt í marga rétti. Fyrir þá sem finnst bökur góðar er sniðugt að nota blaðdeig í botninn til að spara tíma og vinnu, nota nokkur blöð og smyrja með olíu eða smjöri í milli eins og gert er í þessum rétti. Munið að blaðdeig þarf að afþýða svo gott sé að handfjatla það. Ef þið vinnið með hálfrosið deig molnar það allt niður.




Grísk spínatbaka (spanakópítes)
fyrir 6-8

3 msk. olía
1 laukur eða 6-8 smáir vorlaukar, saxað
3 hvítlauksgeirar, saxaðir
400 g spínat
400 g kotasæla
1 krukka fetaostur, vökvi sigtaður frá
2-3 msk. ferskt dill eða 2 tsk. þurrkað
2-3 msk. fersk steinselja eða 2 tsk. þurrkuð ( má sleppa)
sjávarsalt og nýmalaður pipar

1 pakki blaðdeig (fíló-deig)
6 msk. olía
50 g smjör, brætt

Setjið upp vatn í pott. Hitið ofninn í 200°C, 180°C á blástur. Steikið lauk í olíu þar til hann fer að verða glær, bætið þá hvítlauk út í og steikið aðeins áfram. Sjóðið spínatið örstutta stund í sjóðandi vatni, hellið því í sigti og látið renna af því, gott að þrýsta því ofan í sigtið til að ná úr því öllum vökva. Setjið laukblönduna í skál, bætið spínati, kotasælu, fetaosti og fersku kryddi út í, smakkið til með salti og pipar. Blandið olíu og smjöri saman. Benslið botninn á ofnföstu formi, mitt er 35x25 cm. Leggið blaðdeigsörk á botninn og penslið með smjörblöndunni, setjið helminginn af deigblöðunum í formið og smyrjið á milli. Setjið fyllinguna á deigið í forminu. Setjið afganginn af deiginu ofan á og smyrjið á milli. Penslið deigið efst og skerið í gegn um allt í 8 jafna bita. Bakið réttinn í 35-45 mín eða þar til hún er orðin gullin og girnileg. Þið notið styttri bökunartíma ef þið notið blástur. Berið fram með góðu salati. Gott að frysta og nota í nestispakkann. Best er þá að hita upp við 100°C í 10-15 mín.

Sunday, January 2, 2011

Gleðilegt nýtt ár !

Það er nú fátt eins ómótstæðilegt og ilmur að nýbakaðri eplaköku. Þessi eplakaka, sem er eiginlega eplabrauð eða eplapitsa, er stór, dugar alveg fyrir 8-10 manns. Ég blanda saman hveiti og heilhveiti til að gera hana aðeins hollari en það má alveg notast við hveiti eingöngu. Góð byrjun á nýju ári að trappa sig niður í sætindunum að baka svona girnilega eplaköku sem er ekki svoooo...... óholl.


Brauð eplakaka

2 1/2 dl volg mjólk
3 tsk. þurrger
500 g hveiti
100 g heilhveiti
140 g smjör, mjúkt
100 g sykur, eða hrásykur
1 tsk. malað sjávarsalt
2 egg
2 tsk. vanillusykur
20 kardimommuhylki, fræin steitt í morteli, má sleppa

Setið mjólkina í hrærivélarskál og sáldrið gerinu út í, látið bíða í 2-3 mín, hrærið saman. Setjið allt sem fer í deigið út í skálina og hnoðið saman í 4-5 mín með hnoðaranum. Deigið er frekar blautt í sér. Losið deigið aðeins frá köntunum og undir með sleif og sáldrið smá hveiti yfir og um kring, bara svo betur gangi fyrir deigið að lyftast. Setjið plastfilmu yfir skálina og látið deigið lyftast á hlýjum stað í 40-60 mín. Sláið deigið niður og hnoðið létt saman. Setjið bökunarpappír á ofnplötu. Fletjið deigið út á hveitistráðu borði, það mikið að það næstum þeki ofnplötuna. Leggið deigið á pappírinn á plötunni og fletjið það út svo það nái út í alla kanta.

Ofan á:
3 -4 stór epli eða um 1 kíló
100-150 g möndlur, saxaðar (má vera blandaðar hnetur)
100 g rúsínur eða döðlur
100-150 g marsípan, rifið, má sleppa
60-70 g sykur eða hrásykur
2 tsk. kanill
rifinn börkur af 1 sítrónu

Flysjið eplin og skerið í báta, raðið þeim ofan á deigið. Dreifið möndlum, rúsínum og rifnu marsípani yfir eplin. Blandið saman sykri og kanil og sáldrið yfir, líka á endana á deiginu. Rífið sítrónubörk yfir allt í lokin. Látið hefast aftur í 30 mín. Hitið ofninn í 190°C eða 170°C á blástur. Bakið eplabrauðið í 30-40 mín. Berið fram strax. Ef þið eigið afgang er best að frysta og hita síðan upp í ofni við 100°C í 15 mín.