Thursday, December 30, 2010
Tuesday, December 28, 2010

Safaríki kalkúnninn hennar Nigellu
Monday, December 27, 2010

Tuesday, December 21, 2010



Panetone
Wednesday, December 15, 2010
Í uppáhalds fiskbúðinni minni, Hafberg í Gnoðavogi, fæst þessa dagana Keila á frábæru verði eða á 1490 kr. kíló, roðlaust og beinlaust. Keila er af þorskætt, er föst í sér, minnir á skötusel eða lúðu og er algjört sælgæti. Þetta er einn af mínum uppáhaldsréttum. Góður fiskur er að mínu mati betri en nokkur steik...............

800 g keila, þverskorin í 3 cm þykka bita
2 msk. olía
1 msk. smjör
2 hvítlauksrif, sneidd
sjávarsalt og nýmalaður pipar
300 g brúnar linsubaunir
2-3 msk olía
2 skalotlaukar, saxaðir
2-3 hvítlauksrif, söxuð
3-4 sneiðar parmaskinka, önnur hráskinka eða góð pylsa, skorin í bita
sjávarsalt og nýmalaður pipar
2-3 msk. söxuð fersk steinselja
jómfrúarolía til að bera fram með
Sjóðið linsubaunurnar í 30 mín eða þar til þær eru mjúkar, hellið í sigti. Steikið skalotlauk og hvítlauk þar til hann er mjúkur. Bætið hráskinku út í og steikið aðeins áfram, bætið linsubaunum á pönnuna og hitið vel í gegn. Saltið og piprið og sáldrið steinselju yfir. Haldið heitu á meðan þið steikið fiskinn.
Bræðið smjörklípuna í olíu og steikið hvítlaukinn þar til hann er farinn að taka lit, veiðið hann upp úr og geymið. Steikið Keilubitana á báðum hliðum með skurðsárið niður eins og þið væruð með steik, 2-3 mín á hvorri hlið er passlegt en fer þó eftir þykkt stykkjana, saltið og piprin eftir smekk. Setjið hrauk af linsum á hvern disk eða á fat, raðið keilubitunum ofan á og setjið hvítlaukssneiðarnar ofan á fiskinn. Setjið svolítið af jómfrúarolíu í kring um linsurnar og sáldrið steinselju í kring.
Thursday, December 9, 2010
Í mínum huga er fátt jólalegra en mömmukökur. Kryddbragðið af þeim með smjörkreminu er bara yndislegt......Þær eru ekki það fljótlegasta að baka en fyllilega þess virði. Ef ég bakaði bara eina tegund af kökum fyrir jólin er þetta hún.
250 g síróp
125 g sykur
1 egg
500 g hveiti
2 tsk. matarsódi
1/2 - 1 tsk. engifer
1 tsk. kanell
Hitið síróp, smjör, og sykur saman í potti þar til allt er bráðið, kælið aðeins. Bætið eggi út í og blandið saman. Sigtið hveiti, matarsóda og krydd saman og bætið út í sykurblönduna. Hrærið saman í samfellt deig. Þetta má allt gera í pottinum. Kælið deigið í 30-60 mín. Hitið ofninn í 175°C eða 165 á blástur. Skiptið deiginu í 4 parta og fletjið einn part í einu út á hveitistráðu borði. Stingið út kringlóttar kökur og raðið á bökunarpappír á ofnplötu. Bakið kökurnar í 6-7 mín, kælið.
Krem:
200 g smjör
200 g flórsykur
1 eggjarauða
2-3 tsk. vanilludropar
Hrærið allt mjög vel saman eða þar til það er ljóst og loftkennt. Leggið kökurnar saman með kreminu. Geymið kökurnar í blikkboxi á svölum stað eða í kæli.
Wednesday, December 1, 2010
Hér er ein uppáhalds uppskrift að frábærri súpu. Krydduð og kjarnmikil og oft elduð hjá mér þessa dagana. Súpur eru yfirleitt ódýr matur, sérstaklega baunasúpur. Ég nota rautt kryddmauk sem ég kaupi til dæmis í Vietnam market á Suðurlandsbraut við hliðina á Nings, 500 kr dósin og dugar í marga mánuði.
Krydduð baunasúpa
fyrir 6
2 msk. olía + 1 msk smjör
2 laukar, saxaðir
2 hvítlauksrif, söxuð
2 gulrætur, saxaðar smátt
4 cm engiferrót, flysjuð og söxuð
1-2 msk. rautt eða grænt karrýmauk (kryddmauk))
150 g rauðar linsubaunir
12 dl vatn+ 1 kubbur grænmetiskraftur
1 dós tómatar eða 4 dl tómatdjús
2-3 dl létt-kókosmjólk
1 tsk. sjávarsalt og nýmalaður pipar
Steikið lauk, hvítlauk og gulrætur góða stund við í olíu og smjöri. Bætið engifer út í og steikið í 1-2 mín og síðan kryddmauki og steikið aðeins saman. Maukið tómata ásamt safanum í dósinni og bætið þeim út í ásamt öllu öðru nema kókosmjólk. Látið þetta malla í 30 mín. Bætið kókosmjólk og salti út í , og smakkið til með pipar. Sjóðið saman í 5 mín. í viðbót. Súpan er sterk og gott að setja slettu af sýrðum rjóma ofan á og/eða ef þið viljið saxaðan vorlauk eða steinselju.
Friday, November 26, 2010
Uppskriftin að þessari köku hefur fylgt mér lengi og er í miklu uppáhaldi. Hún er að upplagi af ítölskum ættum og er kölluð "brauð" þar í landi. Í henni eru ristaðar heslihnetur sem er svolítil fyrirhöfn en þegar búið er að rista hneturnar svona eru þær engu líkar og gefa kökunni frábært bragð. Mér finnst hún passa mjög vel sem sunnudagskaka á aðventunnni.

80 g heslihnetur
250 g smjör, mjúkt
180 g sykur
4 egg
3 msk. sjerrý eða avaxtasafi
1 dl þurrkaðar döðlur, saxaðar
1 dl þurrkaðar fíkjur, saxaðar
1 dl þurrkaðar apríkósur, saxaðar
1 1/2 tsk. vanilludropar
260 g hveiti (pilsbury´s)
Hitið ofninn í 175°C. Setjið heslihnetur í ofnskúffu og bakið í 5-10 mín eða þar til þær eru dökkar( það má líka rista þær á pönnu). Hrærið saman smjör og sykur þar til það er ljóst og létt. Setjið egg út í eitt í einu og hrærið allt vel saman. Bætið sjerrí eða safa út í og hrærið vel saman. Nuddið hýðið af heslihnetunum, gott að nota rakann eldhúspappír, og saxið þær mjög gróft. Það er allt í lagi að hafa nokkrar heilar. Blandið öllu öðru sem fer í kökuna út í og hrærið saman. Setjið bökunarpappír í 25 cm langt jólakökuform eða smyrjið það og jafnið deiginu í það. Bakið kökuna
a neðstu rim í ofni í klukkutíma. Hún er tilbúin þegar prjóni sem er stungið í hana kemur hreinn út og hætt að "hvissa" í henni.
NB: Trixið við að fá formkökur safaríkar er að taka þær úr ofninum á réttum tíma eða rétt eftir að hætt er að heyrast þetta kraumandi hvissandi hljóð í henni. Fylgist því með kökunni í lok bökunartímans.
Saturday, November 13, 2010

Linsubaunatómatsúpa
Tuesday, September 28, 2010


Tuesday, September 21, 2010

Monday, September 13, 2010
Við erum mjög veik fyrir súkkulaði og súkkulaðikökum á mínu heimili (vægt til orða tekið). Mig grunar að það eigi við um ansi marga. Þessi uppskrift kom til í ljúfri tilraun til að leyfa sér súkkulaðiköku en hafa hana aðeins hollari og næringaríkari. Ég hef bakað hana margoft og hún er sjaldnast eins því úrvalið af þurrkuðu ávöxtunum er mismunandi í skápunum mínum. Trönuber, apríkósur, ljósar rúsínur, döðlur, epli, perur, mangó eða gráfíkjur er til dæmis gott að nota. 2-3 tegundir er gott. Trönuber passa rosa vel með súkkulaði. Stundum set ég 1-2 msk. sultað engifer sem fæst í heilsubúðum, það er mjög gott. ....djúsí súkkulaðikaka sem er allra uppáhald.

Sunday, September 5, 2010
Þessi karamellubúðingur er í miklu uppáhaldi á mínu heimili. Við kynntumst þessum flauelsmjúka og sæta búðing þegar við bjuggum í Frakklandi. Þar í landi er hann jafnalgengur á eftirréttaseðli á veitingahúsum og súkkulaðikaka hér á landi ( sem sagt... alltaf). Í stórmörkuðum þar er síðan hægt að fá allskonar útgáfur.
En.......það jafnast ekkert á við heimalagaðann........að sjálfsögðu. Það má gera búðinginn í litlum formum til dæmis hvítu leirformunum sem eru oft notuð undir mjúka súkkulaðiköku eða í einu djúpu formi leir eða ál um 18-20 cm í ummál. Uppskriftin virkar löng en eftir að hafa gert búðinginn einu sinni er þetta með fljótlegri eftirréttum og hægt að hafa formin tilbúin í ísskáp eða hvolfa honum á diska eða fat og hafa hann tilbúinn þannig. Karamellubúðingurinn er bestur sama dag og hann er lagaður.



Sunday, August 22, 2010
Það þarf bara eina góða haustlægð til að réttlæta það að draga fram góðar súpuuppskriftir. Þessi súpa er algjörlega mitt uppáhald. Hún er kjarngóð og bragðmikil og bara yndislega góð. Ég nota ýmist kindafille (án fitulags) eða vöðva eða lamba eða kindagúllas sem er oft á góðu verði í Fjarðakaup. Nú er bara að njóta komandi haustdaga, koma sér vel fyrir í sófanum með teppi og súpu sem getur næstum læknað hjartasár.

Friday, July 23, 2010
Ég elska bökur...... allskonar.... ávaxta, súkkulaði, spínat........Mmmmmmm...... Sá nýjar apríkósur í búðinni í gær og stóðst þær ekki. Þær eru ekki mjög bragðmiklar einar sér en bakaðar í ofni með sykri eða í svona böku eru þær alveg meiriháttar góðar. Það má nota hvaða ávexti sem er í þessa uppskrift, ferskjur, nektarínur, perur, plómur, bláber, rifsber eða það sem ykkur finnst best.
Það er ekki vandi að gera góða bökuskel, bara að passa að mylja smjörið ekki of smátt, þá verður hún þurr og óspennandi. Það er auðvelt að gera deigið í matvinnsluvél, bara passa að hnoða ekki of lengi í restina, gott að taka deigið úr vélinni og klára að hnoða á borðinu og kæla í 30 mín áður en þið fletjið það út.

Ávaxtabaka
Sæt bökuskel:
180 g hveiti
2 msk. flórsykur
100 g smjör, ískalt
1 eggjarauða
1/2 dl ískalt vatn
Setjið hveiti og flórsykur í rúmgóða skál og blandið saman. Saxið kalt smjör í litla teninga og bætið út í. Myljið smjörið saman við hveitið þar til það er eins og litlar baunir. Hrærið eggjarauðu og vatn saman og bætið út í. Hnoðið saman þar til samlagað, ekki hnoða of lengi. Setjið deigið í plastfilmu og látið bíða í kæli í 30 mín. Hitið ofninn í 180°C. Fletjið deigið út á hveitistráðu borði og setjið í bökuform. Pikkið með gaffli á botninn á deigskelinni og bakið síðan í 12-15 mín eða þar til hún er farinn að taka lit.
Fylling:
500 g apríkósur
2 egg
1 dl sykur
2 dl rjómi
2 tsk. vanillusykur
smá meiri sykur
Skolið og skerið apríkósurnar í tvennt og fjarlægið steininn. Raðið þeim í forbakaða bökuskelina, flott að raða þétt og upp á rönd. Þeytið egg, sykur, rjóma og vanillusykur saman og hellið yfir apríkósurnar. Stráið smá sykri yfir þær og bakið bökuna í um það bil 30 mín eða þar til fyllingin er orðin stíf. Best nýbökuð en hægt að hita upp daginn eftir í 15 mín í 100°C heitum ofni.
Thursday, July 15, 2010
Ég keypti íslenskt kalfakjöt síðustu helgi í Frú Laugu og hef verið að dásama það við alla sem hafa gaman af góðum mat. Reyndar var það þannig að Arnar, eigandi Laugu gaf svo miklar upplýsingar um kálfinn, hvað hann væri gamall þegar hann dó, hvar hann ólst upp og svo framvegis að við vorum bæði komin með tár í augun í búðinni þegar ég var að borga. Við hertum okkur upp heima og matreiddum þetta úrvalskjöt og bókstaflega sleiktum diskana á eftir, . Ég set hér inn hvernig við elduðum það því margir hafa spurt mig hvernig kálfakjöt er matreitt.
Kálfakjöt með fersku kryddi og sítrónu.
fyrir 4
1 kálfavöðvi (um 600 g)
2 msk. olía +1 msk. smjör
1 dl hveiti
salt og nýmalaður pipar
1 sítróna
nokkrir kvistir ferskar kryddjurtir, td. steinselja, timian eða estragon
50 g smjör
Skerið kálfavöðvann, þvert á vöðvann, í 2 sm sneiðar. Leggið sneiðarnar á bretti, setjið plastfilmu yfir og berjið létt á kjötið svo það fletjist aðeins út. Hitið olíu og smjör á pönnu, veltið sneiðunum upp úr hveiti og steikið 2 -3 mín á hvorri hlið, kryddið með salti og pipar. Passa að steikja ekki of lengi. Kreistið sítrónu og sáldrið kryddjurtum yfir og látið malla í 1 -2 mín. Bætið smjöri út í, minnkið hitann og látið bráðna svo úr verði svolítil sósa. Berið fram með góðu salati og nýjum íslenskum kartöflum. Gott að skera kartöflurnar í báta velta þeim upp úr olíu, maldonsalti og rósmarin og ofnsteikja við 200°C í 30-40 mín.
Wednesday, June 30, 2010
Það er alveg nauðsynlegt að kunna eina uppskrift að góðri eplaköku. Nýbökuð eplakaka getur gert kraftaverk. Hörðustu karlmenni geta breyst í mjúka bangsa, bara við kökuilminn. Þessi uppskrift er frekar hefðbundin og kemur frá vinkonu hennar mömmu minnar. Ég kaupi 1/2 líter af rjóma, nota smávegis í deigið og léttþeyti restina. Það þarf mikinn rjóma með svona góðri köku.

125 g smjör
1 1/2 dl sykur
2 egg
rifið hýði af einni sítrónu
2 1/2 dl hveiti
1 tsk. lyftiduft
2-3 msk. rjómi
2-3 epli, td. jónagold eða græn
2 msk. sykur
1 tsk. kanill
50 g valhnetur eða pecanhnetur
Stillið ofninn á 180°C. Hrærið smjör og sykur saman. Bætið eggjum út í einu í einu og síðan allt eftir röðinni. Flysjið eplin og skerið í þykka báta. Setjið deigið í 24-26 cm smurt form. Raðið eplum ofan á. Blandið saman sykri og kanel og sáldrið sykrinum og hnetum ofan á. Bakið í 35-40 mín. Berið fram með léttþeyttum rjóma bragðbættum með vanillusykri.
Monday, June 7, 2010
Það er svo gaman að koma í Frú Laugu á Laugalæk þessa dagana, búðin er sneisafull af allskonar tómötum. Rauðir, gulir, grænir og allt þar á milli. Það er frábært að baka litlu tómatana í ofni og nota út á salöt, í pasta eða setja þá í krukku og hella smá olíu yfir og geyma í ísskáp. Svona bakaðir eru þeir ótrúlega bragðmiklir.


fyrir 4
600 g litlir tómatar, konfekt, heilsu eða aðrir
olía
maldon-salt og nýmalaður pipar
nokkrir kvistir timian eða oreganó
200-300 g pasta, Chicco eða Jamie Oliver er í mínu uppáhaldi
2-3 msk. olía
2-3 hvítlauksrif, sneidd
4-6 sneiðar parmaskinka eða önnur góð hráskinka, skorin í bita
Hitið ofninn í 180°C. Skerið tómatana í tvennt og raðið þeim á bökunarpappír á ofnplötu. Penslið með olíu og malið salt og pipar ofan á. Bakið í um 20-30 mín eða þar til þeir eru vel bakaðir. Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum á pakkanum.Steikið hvítlauk og parmaskinku í 2-3 msk. olíu. Takið 1 dl pastavatn frá og sigtið síðan pastað. Blandið pasta, tómötum, steiktum hvítlauk og skinku saman í stórri skál og blandið nokkrum skvettum af pastavatninu saman við. Blandið vel saman, setjið á diska og rífið parmaost yfir.

Monday, May 31, 2010
Dökk mjúk súkkulaðikaka, lekandi súkkulaði......ummmm.....hvað er betra á rigningardegi þegar rignir meira að segja ösku. Þetta er stór og drjúg kaka, er með formkökudellu þessa dagana.

Alvöru súkkulaðiformkaka
250 g smjör, mjúkt
250 g sykur
3 egg, stór
2 eggjarauður
320 g hveiti
30 g kakó
1 1/2 tsk. lyftiduft
1 1/2 dl mjólk
2 tsk. vanilludropar
100 g súkkulaði, saxað gróft
100 g súkkulaði, brætt til að smyrja ofan á
Hitið ofninn í 175°C. Hrærið saman smjör og sykur í 5 mín. Bætið eggjum út í einu í einu. Bætið rauðunum í og hrærið smástund áfram. Sigtið hveiti, kakó og lyftiduft saman og bætið í deigið ásamt mjólk og vanillu. blandið vel saman. Smyrjið botn og hliðar á 30 cm jólakökuform með olíu eða smjöri. Jafnið deiginu í formið. Bakið kökuna, á neðstu rim í ofninum,í um klukkutíma. Kælið aðeins og takið síðan varlega úr forminu. Smyrjið kökuna með súkkulaði þegar hún hefur kólnað aðeins.
Monday, May 24, 2010
Það er algengt að sjá þetta salat á matseðlum léttari veitinga og kaffihúsa enda uppáhald margra. Heimalagaðir brauðteningar eru málið í þessu salati og Romanie-salatið stökka sem hefur fengist undanfarið í Bónus og víðar. Það er fátt betra en gott kjúklingasalat og ískalt hvítvín eða sódavatn á fallegum sumardegi eins og núna.

fyrir 4
1/2 snittubrauð, ciabatta-brauð eða 6 sneiðar fínt ítalskt brauð
3 msk. ólífuolía
maldon salt
steinselja
1-2 stk. Romanie-salat, fer eftir stærð
parmaostur í flögum
salatsósa:
1 hvítlauksrif, marið
1/2 tsk. maldonsalt
5 msk. mæjones
1 msk. hvítvínsedik
1 dl parmaostur, rifinn
Hitið ofninn í 200°C. Setjið örk af bökunarpappír í ofnskúffu. Skerið brauðið í teninga og setjið á pappírinn ásamt 3 msk. olíu, maldonsalti og steinselju, blandið þessu saman. Bakið brauðið þar til það er gullið og girnilegt. Kljúfið kjúklingabringurnar í tvo hluta og steikið kjúklingabringurnar í smá olíu, látið kólna aðeins á bretti. Hrærið allt saman sem á að fara í salatsósuna, þynnið hana með smá vatni. Skolið salatið og setjið í skál. Brytjið kjúklinginn niður og setjið út á salatið ásamt brauðteningum. Hellið salatsósuni út á og blandið létt saman. Sáldrið parmaostaflögum og saxaðri steinselju út á salatið. Nammi-namm !!!!!
Thursday, May 13, 2010
Vinkona mín fór að segja mér frá bestu brúnköku sem hún hafði nýlega smakkað. Kakan fékk hana til að hugsa um æskuna, sveitina og einhverjar frænkur sem hún hafði greinilega einhverja matar- og kökuást á. Ég á sjálf góðar minningar um svona köku en hef ekki bakað hana í mörg ár. Mér datt í hug að sjá hvort ég fyndi uppskrift í bók eftir Helgu Sigurðardóttir. Bókin heitir Bökun í heimahúsum og er gefin út 1930. Að sjálfsögðu var hún þar, og frábær uppskrift. Ég minnkaði sykurinn aðeins og breytti uppskriftinni örlítið að mínum smekk en finnst meiriháttar gott að setja sítrónubörk í hana. Nýbökuð með ískaldri léttmjólk sló hún algjörlega í gegn.

Friday, May 7, 2010

Góðar ólífur
Monday, May 3, 2010

Kremið á kökuna er ljóst súkkulaðikrem og það finnst öllum algjört "must" að hafa það.


Tuesday, April 27, 2010
Ferskt kóríander er í miklu uppáhaldi. Það er eitt það besta ferska krydd sem ég get hugsað mér. Hnefafylli út á gott salat breytir salatinu í sælkerasalat. Þetta kóríander-pestó er gott út á bæði kjöt og fisk og er himneskt !!!! Það er best að kaupa ferskt kóríander í asíubúðunum, í Mai-Tai við Hlemm fá þær sendingu einu sinni í viku.


Monday, April 26, 2010
Var á vappi um miðbæinn um helgina og sá að Noodle station,- staðurinn með góðu núðlurnar var búin að opna aftur. Er líklega búin að fá leyfið fyrir staðnum. Mér finnst þetta svo frábær núðlustaður, engin umgjörð bara góðar núðlur á sanngjörnu verði, ekki laust við að manni finnist maður vera kominn til útlanda.
Mæli með honum þessum, er á horninu á Skólavörðustíg og Klappastíg.
Tuesday, April 20, 2010


Thursday, April 15, 2010
sælkerans sem sneri baki við lífinu sem desertkokkur á fínu veitingahúsi og settist að í París. Hann er með skemmtilegt blogg, uppskriftirnar hans eru skotheldar. Langar í þessa köku.......Mmmmm.........

Wednesday, April 14, 2010
Ég vil ekki vera með leiðindi en....mér finnast pakkasósur ekki spennandi, lítið annað en lím og aukaefni og nota þær helst ekki. Með flösku af óáfengu hvítvíni (sem kostar eins og 3 sósupakkar og endist lengi), gróft sinnep, hunang og sýrðan rjóma að vopni er hægt að gera frábæra sósu á grísa eða kálfakjötsneið og kjúkling. Safinn af kjötinu blandast í sósuna og gerir hana ótrúlega góða.

Friday, April 9, 2010
Kardimommufræ eru frábært krydd og breytir venjulegu sætabrauðsdeigi í eitthvað alveg nýtt. Það er best að kaupa heil hylki, þau fást í flestum verslunum og örugglega í heilsubúðum og ódýrust í Asíubúðunum. Til að ná fræjunum innan úr er best að setja þau á bretti og merja þau með t.d.hnífsblaði, setja fræin í mortel eða plastpoka og merja vel. Ilmurinn er ómótstæðilegur Ummm..........
Kanelsnúðar
250 g hveiti
120 g smjör, kalt í teningum
1 dl mjólk, fingurvolg
2 tsk. þurrger
3 msk. sykur
1/2 tsk. salt
1/2 -1 tsk. kardimommufræ, steytt
fylling:
100 g marsípan
60 g smjör
3 msk. sykur
2 tsk. kanill
Myljið hveiti og smjör saman. Bætið öllu öðru út í og hnoðið samfellt deig. Setjið deigið í olíuborna skál og látið hefast á hlýjum stað í um 30 mín. Hitið ofninn í 200°C. Fletjið deigið út í ferning um 40x20 cm. Rífið marsípanið og smjörið jafnt yfir deigið. Blandið sykri og kanel saman og stráið yfir líka. Rúllið lengjunni upp eftir lengri hliðinni og skerið hana í 12-14 bita. Raðið þeim á bökunaplötu klædda smjörpappír og látið hefast aftur undir klút í 30 mín. Penslið með mjólk eða eggi og dustið meiri kanel yfir ef þið viljið. Bakið snúðana í um 20 mín eða þar til þeir eru fallega gullnir og girnilegir.
Thursday, April 1, 2010
Það er endalaust hægt að gera góða rétti úr kjúklingabringum. Þessi réttur varð til þegar fullt var til af estragon í ísskápnum og var búin að gera alla uppáhaldsréttina úr þessu frábæra og sérstaka kryddi. Ofan á í staðin fyrir paprikurnar má setja hálfsólþurrkaða tómata frá Sacla, þegar þeir fást eða gott kryddmauk eins og klettakáls, basil eða kóríanderpestó. Eða bara kíkja í búrið eða ísskápinn og láta ímyndunaraflið leiða sig áfram...........

Estragonkjúklingur
fyrir 4
3-4 kjúklingabringur
2 msk. olía
1-2 msk. estragon eða 1-2 tsk. þurrkað
50-80 g smjör
salt og nýmalaður pipar
1/2 krukka paprikur í olíu, sigtað
50 g parmaostur
1-2 msk. ferskt estragon eða 1-2 tsk. þurrkað
Hitið ofninn í 200°C. Leggið lófann ofan á kjúklingabringurnar og skerið þær í tvo hluta. Leggið hverja kjötsneið á plast, leggið annað plast yfir og fletjið bringuna aðeins út með kefli eða flösku svo hún verði stærri um sig og flatari. Steikið kjötið á báðum hliðum í olíunni og leggið í ofnfast fat. Leysið djúsið upp á pönnunni með því að bræða smjör og setja estragon út í, hellið þessu í fatið, hreinsið það sem eftir er á pönunni með 1/2 dl vatni og hellið líka í fatið. Saltið og piprið kjötið. Setjið ferskt estragon, papriku eða tómat ofan á. Rífið ostinn og stráið yfir. Bakið í ofni þar til ðsturinn er bráðinn. Berið fram með ofnsteiktu grænmeti eða fersku salati
Monday, March 29, 2010
Svo það sé alveg á hreinu á þessi heimalagaða súkkulaðisósa nær ekkert sameiginlegt með þeirri sem fæst keypt í sprautuflöskum út í búð. Hún verður samt jafn góð og gæðin á súkkulaðinu sem þið setjið í hana, svo notið eins gott súkkulaði og þið hafið efni á. Sumt er alveg þess virði að borga vel fyrir, við erum að tala um SÚKKULAÐI !!!!!!!!!!!!

150 g súkkulaði, suðusúkkulaði eða 70%
2 dl matreiðslurjómi, rjómabland eða mjólk
2-4 msk. síróp, venjulegt eða hlynsíróp
30 g smjör
Setjið allt í pott og hitið vel saman. Magnið af sírópi fer eftir því hversu hreint súkkulaði þið notið. Það þarf meira síróp í dökka súkkulaðið. Smakkið samt til, súkkulaði er misjafnt. Sósan geymist í viku í kæliskáp.
Sunday, March 21, 2010
Þessar súkkulaðikökur eru með þeim bestu sem ég fæ. Þær eru ekki ódýrar en úr uppskriftinni fást 18 stórar kökur og ein á mann er meir en nóg því þær eru fullar af súkkulaði og mjög bragðmiklar. Það er gott að frysta þær og eiga í eftirrétt með ís eða með afgangnum af rauðvíninu eftir vel heppnaða máltíð.
Stórar Súkkulaðikökur
80 g 70% súkkulaði
150 g suðusúkkulaði, venjulegt
80 g smjör
1-2 tsk. neskaffi, má sleppa
2 egg, stór
140 g sykur
1 tsk. vanilludropar
50 g hveiti
1 tsk. lyftiduft
100 g súkkulaði, saxað eða dropar
150 g valhnetur, saxaðar gróft
Hitið ofninn í 180°C eða 160°C blástur. Bræðið báðar tegundir af súkkulaði og smjör saman í örbylgjuofni eða í vatnsbaði við vægan hita, leysið kaffiduftið upp í blöndunni. Þeytið egg og sykur saman þar til ljóst og létt. Blandið hveiti og lyftidufti saman. Blandið öllu saman og blandið saman með sleikju í samfellt deig. Setjið 2 arkir af bökunarpappír á 2 ofnplötur. Setjið deigið með tveim matskeiðum á pappírinn, þið eigið að fá 18 kökur, 9 á hverja plötu. Bakið kökurnar í 10-12 mín, 8-10 mín í blástursofni. Kökurnar má alls ekki ofbaka, þær eiga að vera þurrar að utan en mjúkar innan í. Kökurnar eru unaðslegar nýbakaðar en síðan gott að setja þær í box, setja smá bökunarpappír á milli þeirra og frysta.


Monday, March 15, 2010
Gremolata er kryddmauk sem er gott í allt mögulegt og sérlega gott til að smyrja ofan á fisk. Stórlúða með gremolata er frábær veislumatur en annar hvítur fiskur er líka góður. Hér er spriklandi ferskt lúðuflak notað og með kartöflum soðnum með spergilkáli alveg meiriháttar gott.
Fiskur með Gremolata
fyrir 4
800 g ferskur fiskur
1 sítróna
hnefafylli af ferskri steinselju
100 g grænar ólífur
4-5 msk. olía
1 tsk. maldonsalt
3 hvítlauksrif
smjörklípa
Hitið ofninn í 180°C. Smyrjið ofnfast form með olíu og leggið fiskflakið í það. Setjið börk af sítrónu, steinselju, ólífur, salt og hvítlauk í matvinnsluvél og blandið vel saman. Bætið safa af 1/2 sítrónu og slatta af olíu út í. Smyrjið þessu á fiskinn. Setjið smávegis af smjöri í litlum klípum ofan á flakið. Bakið í um 15 mín. Lengur ef þið eruð með stórlúðu, svona um 20-25 mín eftir þykkt stykkjana. Berið fram með kartöflum soðnum í saltvatni og sjóðið spergilkálsbrúska með síðustu 3-4 mínúturnar. Setjið kartöflublönduna í skál og smá smjör og nýmalaðan pipar saman við.


